Þessi réttur er bæði ljúffengur og fallegur á borði! Sósan er bragðmikil og ef hún þykir einum of bragðmikil er hægur vandi að bæta við vatni þegar kjúklingurinn er fulleldaður og þeir sem vilja hafa hana örlítið þykkari geta einfaldlega hrært út smá sósuþykkjara.
1 – 1 1/2 kg kjúklingabitar
1/2 – 1 tsk paprikuduft
1 dl sojasósa
1 dl appelsínuþykkni (bragðmikið)
1 – 2 dl vatn
1/2 dl púðursykur
3 hvítlauksrif, fínhökkuð
30 g ferskt engifer, rifið
1 tsk steytt kóríander
1 appelsína, sneidd (ef vill)
fersk kóríanderlauf (ef vill)
sósuþykkjari (ef vill)
Kjúklingabitunum raðað í eldfast mót. Paprikuduftinu stráð yfir bitana. Rest blandað saman og svo hellt yfir. Eldað í ofni við um 180 °C í tæpan klukkutíma eða þar til fulleldað. Appelsínusneiðunum er raðað ofan á þegar um hálftími er eftir af eldunartímanum. Sem fyrr segir er sósan mjög bragðmikil en hana er hægt að smakka til þegar búið er að setja bitana á fat, einhverjir kunna að vilja auka við sykurinn, aðrir við vatnið eða kannski salta ögn.
Það er heldur engin ástæða til að hafa stórar áhyggjur af því þó eitthvað eitt vanti. Það má prófa að nota appelsínusafa í stað þykknis og setja þá minna vatn í staðinn; paprikuduftinu má sleppa eða setja smá kjúklingakrydd í staðinn. Það skiptir heldur ekki öllu máli hvaða sykur er notaður.