Kjúklingavængir eru tilvaldir sem smáréttur á veisluborð eða einfaldlega sem full máltíð. Til eru þeir sem geta ekki hugsað sér Eurovision án þeirra! Hægt er að krydda þá á ótal vegu, fara einfalda leið og kaupa tilbúna kryddblöndu eða grillsósu í búð eða e.t.v. setja sósuna í sparibúning.
Grillsósa 1
1-2 dl BBQ sósa (bandarísk)
1-2 dl plómuhlaup
Plómuhlaupið þarf að velgja til að geta blandað því saman við BBQ sósuna, þá eru vængirnir baðaðir í sósunni og loks raðað á ofnplötu. Þeir eru síðan annað hvort grillaðir eða steiktir í ofni í við 225 °C (eða 200 °C og blástur). Þegar um 10 mínútur eru eftir af tímanum er bætt á sósuna á vængjunum. Plómuhlaupið var reyndar bara notað fyrir rælni, smá rabbabarasulta gæfi eflaust líka góðan keim en samkvæmt 5 ára gömlum matgæðingi voru þessi vængir „rosalega góðir“.
Gott er að bera t.a.m. fram grænmetissnakk og kalda gráðostasósu með vængjum sem þessum.
Grillsósa 2
2 dl amerísk BBQ sósa
nokkrar plómur (Opal)
skvetta af matreiðsluhvítvíni
skvetta af rauðvínsediki
svolítið af hunangi
væn skvetta af tabasco
2 msk Worchestershire sósa
svolítið af fersku engiferi
Plómurnar helmingaðar og soðnar í hvítvíninu þar til hægt er að flysja þær. Að því loknu er öðru bætt út í og sósan maukuð með töfrasprota ef þess þarf en annars smökkuð til.