Mjög gott er að skera kjúklingakjöt í litla bita, hæfilega stóra sem pizzuálegg, krydda með t.d. paprikukryddi eða jafnvel Creola kryddblöndu og steikja snöggt í olíu á pönnu við fremur háan hita. Ekki steikja hann of lengi, það vill enginn harða og þurra bita af kjúklingi á pizzunni sinni! Steikja má meira magn en þörf er á og frysta í þunnu lagi, þ.e. lausfrysta til seinni tíma.
Eftirfarandi uppskrift gefur fullkomið pizzadeig!
11 dl brauðhveiti
1 1/2 tsk salt
1 tsk þurrger (eða meira ef tíminn er knappur)
1/2 – 3/4 dl ólífuolía
4 – 4 1/2 dl vatn
fínt maísmjöl og olía til að nota á bökunarplöturnar
Blanda saman hveiti, salti og þurrgeri; bæta svo við olíu og vatni. Hnoðað í hrærivél á meðalhraða í 5-7 mínútur eða þann tíma sem það tekur að búa til slétt og klístrað deig. Deigið á að hreinsa hliðar skálarinnar en vera fast við botn hennar. Ef deigið losnar af botni hennar skal bæta við örlitlu vatni en ef deigið situr fast á hliðunum þarf að bæta við smá hveiti. Þegar deigið er tilbúið á það að vera teygjanlegt og nokkuð klístrað.
Deiginu skipt í 3-4 búta og þeir mótaðir í kúlur, notið hveiti til að festast ekki við. Hver kúla er síðan olíuborin og á þessu stigi má annað hvort stinga kúlunum í kæli eða í frysti. Í kælinum þyrftu þær að vera undir plastfilmu og í frystinum í plastpoka, ein í hverjum. Deigið geymist í í frysti í allt að 3 mánuði.
Um 1-2 klst áður en nota skal deigið skal sáldra hveiti á einn hluta borðs og olíubera annan hluta. Setjið deigið á hveitihlutann og sáldrið hveiti yfir það. Þrýstið lauslega á deigið þar til það er orðið að um 2 cm þykkri skífu. Setjið skífurnar á olíuborið borð, olíuberið deigið og breiðið plastfilmu lauslega yfir. Látið bíða á borðinu í um 1-2 klst ef deigið hefur verið kalt. Tíminn fer mikið eftir bæði hitastigi í eldhúsi og hitastigi deigsins, t.d. ef ylvolgt vatn hefur verið notað í deigið tekur hefingin skemmri tíma.
Stillið ofninn á 250 °C og blástur. Þá má setja tvær plötur inn þó betra sé að setja eina í senn. Berið þunnt lag olíu á bökunarplötu og dustið með fíngerðu maísmjöli. Hveitistráið deigskífurnar og hendurnar, mótið svo deigið í höndunum í heppilega pizzustærð og setjið á bökunarplöturnar. Vissulega má sleppa maísmjölinu og nota bara hveiti og bökunarpappír í staðinn.
Deigið smurt pizzasósu og áleggið sett á. Það er erfiðara að fá botninn góðan ef mikið er af áleggi en það er samt alveg agalega gott að hafa mikið af áleggi. Það ætti ekki að taka nema 5-8 mínútur að baka hverja pizzu.

Gott er að breiða plastfilmu yfir olíuborið deigið á meðan það hefast