Þessi uppskrift styðst við uppskrift úr Stóru matarbókinni en sú uppskrift er í raun hin fræga franska uppskrift ”Coq au vin” eða hani í víni. En þar sem hanar liggja ekki á lausu og uppskriftin er ekki upprunaleg þá er þetta einfaldlega kjúklingur í rauðvínssósu sem kemur hér fyrir.
1 kg kjúklingabitar
30 g smjör
salt
pipar
150 g steikarlaukar (eða aðrir litlir laukar)
650 g litlir sveppir
100-150 g beikon
2 hvítlauksrif, fínhökkuð
1 1/2 msk hveiti
1 msk tómatmauk (purée)
2-3 dl matreiðslurauðvín
1/2 L kjúklingasoð
1 msk sykur
steinselja, fersk og söxuð
Smjörið brætt á pönnu og kjúklingabitarnir brúnaðir; að því loknu er þægilegt að færa bitana í pott og hafa þá við vægan hita. Næst er laukur og beikon látið krauma á pönnunni í nokkrar mínútur; því næst er sveppum og hvítlauk bætt út í (eða laukur og beikon fært áður yfir í pottinn) og látið krauma í nokkrar mínútur. Þess skal vel gætt að hvítlaukurinn brenni ekki, auðvitað á ekkert að brenna en hvítlaukurinn er viðkvæmur og verður bragðvondur við það. Þegar allt er komið í pottinn er hveitinu stráð yfir, hrært í og leyft að krauma í stutta stund eða 1-2 mínútur. Þá er tómatmauki, víni og sykri bætt út í; hitað að suðu. Að lokum er soðinu bætt við en ekki kannski öllu í einu, sumir vilja e.t.v. ekki hafa sósuna svo þunna. Annars er allt látið malla þar til kjúklingurinn er fulleldaður. Í upprunalegu uppskrftinni er soðið tekið frá og smjöri þeytt saman við en það fer bara eftir því í hvernig stuði maður er.
Í stað matreiðslurauðvíns má vissulega nota rauðvín og jafnvel púrtvín en þá í minna mæli.