Þessi réttur hefur slegið í gegn í fjölmörgum matarboðum og enn sem komið er hefur enginn viðurkennt annað en að þykja hann sérlega góður! Ekki spillir að hann er einkar einfaldur og nánast vonlaust að klúðra.
1 kg kjúklingabringur eða aðrir bitar
1 msk smjör
1 msk karrý
5 dl rjómi (eða rjómabland)
150 g rjómaostur
1 dl mangó chutney
2 tsk garam masala
salt
pipar
Kjúklingurinn kryddaður með salti og pipar og síðan grillaður ef kostur er, annars steiktur á pönnu. Smjörið brætt í potti og karrýið látið krauma í stutta stund, þá er rjómanum og öðru bætt út í. Sósan er tilbúin þegar rjómaosturinn er bráðinn og búið er að smakka sósuna til. Þeir sem vilja þynnri sósu einfaldlega bæta við vatni, mjólk eða rjóma; þeir sem vilja hana þykkari auka hlut rjómaostsins.
Ef kjúklingurinn hefur verið grillaður í gegn er rétturinn tilbúinn á borðið en ef bitarnir hafa bara verið brúnaðir má setja þá í eldfast mót, sósuna yfir og klára að elda réttinn inni í ofni við um 180 °C.
Með réttinum er gott að hafa soðin hrísgrjón, e.t.v. með heilum kardemommum, anís eða jafnvel rúsínum úti í; sneidda banana; gott salat með fetaosti í kryddolíu; og loks mangó chutney. Ef maður er í algjöri stuði eða á von á mörgum gestum er líka gott að baka naan brauð til að hafa með. Það á ekki síst við ef mörg eru börnin, þeim finnst nú flestum gott að narta í gott naan.