Við matreiðslu skal ávallt gæta þess að blóðvökvi komist ekki í önnur matvæli, til að mynda skal þvo hnífa, bretti, borð og hendur eftir að kjötið hefur verið meðhöndlað.

Kælivöru á borð við ferskan kjúkling er mjög mikilvægt að geyma við rétt hitastig eða 0-4 °C, til að viðhalda ferskleika. Gæta skal að því að kjöt á alls ekki að lykta illa.

Frystivöru skal geyma við -18 °C eða lægra hitastig. Skemmdar umbúðir geta orðið til þess að kjötið frostþorrni, þá myndast áberandi blettir á kjötinu.

Kjúkling sem tekinn er upp úr frysti er rétt að þíða í kæliskáp en það tekur um sólarhring að þíða heilan kjúkling á þann hátt. Ef nauðsyn krefur má þíða fuglinn í köldu vatni (tekur um 4 klst.) eða við herbergishita (tekur um 7 klst.) en þá er best að gæta þess að elda kjúklinginn eins fljótt og kostur er eftir að hann hefur þiðnað.

Eldunartími

Kjúklingakjöt skal ávallt elda í gegn, þegar prjóni er stungið í þykkasta hluta kjúklingsins skal safinn sem sprettur fram vera tær en ekki bleikur. Ef enginn safi sprettur fram er hætta á að búið sé að ofelda kjötið og því rétt að kippa því úr hitanum. Eldunartímar hér að neðan eru til viðmiðunar og það er rétt að hafa í huga að ofnar eru mismunandi, eins skiptir máli hvort kjúklingur sé kaldur eða við herbergishita þegar hann fer í ofninn eða á grillið og að síðustu eru stykkin misstór og þar af leiðandi mislengi að hitna í gegn.

Ofnsteiking

Heill kjúklingur 175-200 °C 60-90 mín.
Hálfur kjúklingur 175-200 °C 45 mín.
Bringa 200-225 °C 20-25 mín.
Heilt læri 200-225 °C 35-40 mín.

Grilltími

Bringa 7-10 mín. á hvorri hlið
Heilt læri 15 mín. á hvorri hlið