Kjúklingakjöt hefur milt bragð og er því við flestra hæfi. Það er hægt að elda á ótal vegu og er auðvelt í eldun. Þeir bitar sem er þó hvað auðveldast að eyðileggja eru líklega bringurnar, þær eru magrar og því fljótar að þorna við ofeldun. Óöryggir ættu því e.t.v. að byrja á vængjum eða mögulega lærbitum.
Bragð og eiginleikar mismunandi hluta kjúklingsins eru mismunandi. Bringur eru magrar, ljósar og bragðmildar; vængir eru sérlega safaríkir og bragðmiklir í samanburði við bringurnar og kjötið dekkra. Leggir eru safaríkir en það er þó auðveldara að ofelda þá heldur en lærin sem eru einstaklega safarík og góð.
Allar uppskriftirnar sem birtast hér á síðunni hafa verið eldaðar margsinnis af fjölskyldunni og allur maturinn á myndunum var étinn upp til agna að myndatöku lokinni. Stundum er erfitt að segja til um uppruna uppskriftanna en þegar við á er heimilda getið.
Við munum halda áfram að bæta við einföldum og þægilegum uppskriftum inn á síðuna eftir því sem tækifærin gefast.