Hugtakið hænsnfuglar á við um ættbálk fugla sem kallast á fræðimáli Galliformes. Hænsnfuglar kroppa fæðu af jörðinni og eru fremur þungir á skrokkinn. Rjúpur, páfuglar, fasanar, kjúklingar, kornhænur og kalkúnar eru allt dæmi um hænsnfugla. Raunar eru allir þessir fuglar jafnframt af einni og sömu ættinni, þ.e. ætt fasana (Phasianidae). Þónokkrar tegundir hænsnfugla hafa verið nýttar af mönnum; ýmist veiddar eða ræktaðar fyrir kjöt og egg; en jafnvel til prýði og varna en varnarköll páfugla eru mjög hávær og sumir nota þá til að halda rándýrum frá hænum sínum.
Kjúklingar heita á fræðimálinu Gallus gallus domesticus og eru undirtegund rauðu frumskógarhænunnar(red junglefowl). Hún var fyrst tekin undir mannahendur að því er talið er fyrir að minnsta kosti 5000 árum í Asíu og hefur dreifst þaðan um allan heim. Þó kann að vera að einhver blöndun við aðrar tegundir frumskógarhæna hafi átt sér stað, líklega gráu frumskógarhænuna. Rauða frumskógarhænan finnst í suðaustur Asíu en margir hafa áhyggjur af stöðu hins villta stofns þar sem mikil blöndun á sér stað við hænsn sem ganga laus á útbreiðslusvæði þeirra.